Skip to Content

Lög BÍL

 

LÖG

BANDALAGS ÍSLENSKRA LEIGUBIFREIÐASTJÓRA

 

13. NÓVEMBER 1996.

Breyting gerð 6. nóvember 2002.

Breyting gerð 7. desember 2004

 

I. KAFLI

Almenn ákvæði

                                                                     1. grein.

Heiti bandalagsins er: Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra.

Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

Heiti bandalagsins má skammstafa: B.Í.L.S.

 

                                                                     2. grein.

Bandalagið er landsamtök bifreiðastjóra, sem aka 4-8 farþega leigubifreiðum til fólksflutninga.

Hlutverk bandalagsins er að hafa forystu í öllum hagsmunamálum leigubifreiðastjóra þ.m.t. gjaldskrármál, svo og hvers konar félagsstarfsemi, sem verða má til hagsbóta fyrir bifreiðastjórastéttina.

           

                                                                     3. grein.

Rétt til inngöngu í bandalagið hafa öll þau félög leigubifreiðastjóra eða deildir leigubifreiðastjóra innan bifreiðastjórafélaga eða verkalýðsfélaga.

Einstakir leigubifreiðastjórar, sem hafa atvinnuleyfi útgefið af Vegagerðinni og eru utan félagssvæða bandalagsfélaga geta fengið beina aðild að bandalaginu.

 

                                                                     4. grein.

Úrsögn félags úr bandalaginu er því aðeins gild, að hún hafi verið samþykkt með 2/3 hluta atkvæða að viðhafðri allsherjaratkvæða-greiðslu í félaginu.

 

                                                                   II. KAFLI

                                                                    Fjármál.

                                                                     5. grein.

Hvert félag, sem í bandalaginu er, greiðir gjald til bandalagsins fyrir félagsmenn sína. Gjaldið miðast við tölu félagsmanna eins og hún er 1. mars ár hvert.

 

                                                                     6. grein.

Bandalagsþing tekur ákvörðun um, hvert gjald bandalagsfélaga skuli vera.

Gjaldið skal miðast við að bandalagið hafi traustan fjárhag.

 

                                                                     7. grein.

Í mars ár hvert senda félagsstjórnir til framkvæmdastjórnar skýrslu um félagatölu eins og hún er 1. mars skv. 5. gr.

Gjaldið ber að greiða á tímabilinu frá 1. apríl til 1. september ár hvert.

Að fengnum og athuguðum framtalsskýrslum félaganna, tilkynnir framkvæmdastjórn hverju félagi bréflega, hvað því beri að greiða.

Nýtt félag greiðir gjald á fyrsta ári eftir félagatölu sinni eins og hún er, þegar það gengur í bandalagið, og hlutfallslega við þann tíma, sem eftir er af árinu, þegar það hefur verið tekið í bandalagið.

 

                                                                     8. grein.

Vanræki aðili að bandalaginu, samkvæmt 3. gr. laganna, greiðslu fram yfir 1. október ár hvert, missir viðkomandi aðili réttindi sín hjá bandalaginu. Skal það tilkynnt hlutaðeigandi þegar í stað með sannanlegum hætti.

Þó er framkvæmdastjórn heimilt, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, sem hún metur gildar, að veita félagi eða einstaklingi með beina aðild að bandalaginu tiltekinn frest til greiðslu á gjaldinu.

 

                                                                     9. grein.

Stjórn bandalagsins er heimilt að gera samkomulag við einstök félög innan bandalagsins um daglegan rekstur bandalagsins.

 

                                                                  III. KAFLI

                                                              Bandalagsþing.

                                                                    10. grein.

Bandalagsþing skal halda annað hvert ár í október eða nóvember.

Aukaþing skal halda, þegar stjórn bandalagsins þykir þurfa, eða þegar meirihluti bandalagsfélaga krefjast þess skriflega.

Fulltrúar á aukaþing bandalagsins eru þeir, sem kjörnir voru fulltrúar bandalagsins á síðasta þingi þess.

 

                                                                    11. grein.

Bandalagsþing skal boða með eins mánaðar fyrirvara með bréfi til bandalagsfélaganna. Aukaþing má boða með skemmri fyrirvara, ef brýna nauðsyn ber til.

 

                                                                    12. grein.

Fulltrúar á bandalagsþingi eru stjórnir þeirra félaga, sem aðild eiga að bandalaginu, ásamt þeim aðilum sem eiga beina aðild að því.

 

                                                                    13. grein.

Á bandalagsþingi skulu tekin fyrir öll þau mál, sem þurfa þykir og bandalagið og leigubifreiðastjórastéttina varða. Þá skal á bandalagsþingi kjósa tvo skoðunarmenn reikninga bandalagsins og einn til vara.

 

                                                                    14. grein.

Í atkvæðagreiðslum á bandalagsþingi skuli hvort tveggja ráða, einfaldur meirihluti og jafnframt skal tryggt að meirihluti félaga sem aðild eiga að bandalaginu standi á bak við samþykktir þess. Þetta skal gert með þeim hætti, að hver fulltrúi á bandalagsþingi skal hafa atkvæðavægi í samræmi við fjölda félagsmanna. Ef fulltrúar félags eru fleiri en einn skal vægi atkvæða skiptast hlutfallslega á milli þeirra.

 

                                                                    15. grein.

Bandalagsþing hefur æðsta vald í öllum málum bandalagsins. Bandalagsþing er lögmætt, ef löglega er til þess boðað.

 

 

IV. KAFLI

Tilhögun stjórnar

                                                                    16. grein.

Formenn frá félögum allra aðildarfélaga bandalagsins skipa stjórn þess auk þess er hverju félagi heimilt að tilnefna í stjórn þess einn fulltrúa fyrir hverja eitt hundruð og fimmtíu félagsmenn. Á bandalagsþingum skulu þeir aðilar sem eiga beina aðild að bandalaginu kjósa einn fulltrúa að auki í stjórn þess. Stjórn bandalagsins skal halda fundi á vorin og á haustin. 

 

                                                                    17. grein.

Stjórn bandalagsins skal kjósa formann, varaformann og ritara úr sínum röðum. Mynda þeir framkvæmdastjórn bandalagsins og fer hún með málefni bandalagsins á milli stjórnarfunda. Stjórnir aðildarfélaga geta óskað eftir fundum með framkvæmdastjórn bandalagsins þegar þeim þykir ástæða til.

 

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

                                                                    18. grein.

Hvert aðildarfélag greiðir ferðakostnað fyrir fulltrúa sína á bandalagsþingum og dagpeninga, ef um er að ræða. Bandalagið greiðir gisti- og fundarkostnað, þ.m.t. fæði fulltrúa aðildarfélaganna.

Bandalagið greiðir allan kostnað við stjórnar- og framkvæmdastjórnarfundi.

 

                                                                    19. grein.

Framkvæmdastjórn ákveður hvaða fulltrúa og hve marga skal senda á Taxaráðsþing Norðurlanda.

Bandalagið greiðir ferðakostnað og ferðatryggingar. Dagpeningar skulu greiddir fulltrúum sem sitja þingið.

 

                                                                    20. grein.

Lögum bandalagsins má aðeins breyta á bandalagsþingi.

Skulu hafðar tvær umræður um lagabreytingar og telst lagabreytingin ekki samþykkt, nema 2/3 greiddra atkvæða fundarmanna samþykkja hana.

Lagabreytingar skulu ávallt auglýstar í fundarboði til bandalagsþings. Skulu tillögur um lagabreytingar hafa borist aðildarfélögum eigi síðar en viku fyrir þing.

 

 

Lög þessi voru samþykkt í heild sinni á 14. landsþingi B.Í.L.S., þann 13. nóvember 1996.

           

Breyting gerð á 17. landsþingi B.Í.L.S. 6. nóvember 2002.

Breyting gerð á 18. landsþingi B.Í.L.S. 7. desember 2004.