31. desember 2023

Áramótakveðja og annáll

Nýtt starfsár Frama 2023 hófst með aðalfundi félagsins þann 9.maí sl. og þar sem þrír nýir stjórnarmenn voru kosnir, þau Kristjana Kristjánsdóttir, Magnús Daníel Karlsson og Stefán Jónasson á meðan Halldór Guðmundsson, Snæbjörn Jörgensen og Árni Özur gáfu ekki kost á sér til endurkjörs.

Hin nýja stjórn var meðvituð um að mæta krefjandi aðstæðum, eftir að gildandi lög um leigubifreiðaakstur voru afnumin og ný lög höfðu tekið gildi 1. apríl.

Stjórnin hefur haldið reglulega fundi og innan hennar ríkir mikil eining um framtíð leigubifreiðastjóra á Íslandi, þar sem mörg verkefni eru fyrir höndum. Orrustan tapaðist 16.desember 2022 þegar stéttin hafði ekki náð til eyrna þingmanna áður en lögum var breytt. Baráttan heldur því áfram til þess að tryggja öryggi almennings í umhverfi leigubifreiða og búa um afkomu þeirra sem stunda leigubifreiðaakstur í atvinnuskyni.

Á haustmánuðum fóru Fulltrúar Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra á Norðurlandaþing Taxaráðs NTR23 sem haldið var í Stokkhólmi og Karli Sverrissyni félagsmanni Frama var boðið heiðurssæti á Landsþingi Norska sambandsins. Finnar, Svíar og Norðmenn standa frammi fyrir lagabreytingum til að endurreisa leigubifreiðamarkaðinn eftir eyðileggingarnar í kjölfarið af sömu lagabreytingu og þeirri sem var framkvæmd hérlendis í blindni. Hjá þessum nágrannaþjóðum okkar, hefur fjöldi leyfa stóraukist eftir afnám fjöldatakmarkana og þjónustan hefur farið sí versnandi, svo ómögulegt þykir annað en að endurskoða lagabreytingarnar. Danir hafa hins vegar haldið sama fjölda í gegnum breytingarnar hert sektarákvæði við brotum í leigubifreiðaakstri. Norðurlöndin eiga það sameiginlegt að standa framarlega í rafbílavæðingu, sem þó strandar hlutfallsega á takmörkuðu framboði hleðslustöðva á nauðsynlegum stöðum.

Ástgeir Þorsteinsson fyrrverandi formaður Frama í rúma tvo áratugi, lést 4.október sl, 73ja ára að aldri eftir hetjulega baráttu við krabbamein í tvö ár. Við minnumst hans af virðingu og hlýhug og sendum fjölskyldu hans og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Þann 28. Október fór félag eldri bílstjóra Frama í sína árlegu haustferð, sem hafði reyndar ekki verið farin síðan 2019, þar sem sóttvarnir mældu gegn slíkum mannamótum. Þannig féll hausteferð eldri bílstjóra niður í þrjú skipti, en þetta skiptið var alveg met þátttaka og taldi ferðahópurinn 39 ferðafélaga með bílstjóra og fararstjóra. Ferðin lá til Borgarfjarðar þar sem Englendingahúsin voru heimsótt og fjölbreytilegt leikfangasafn staðarins skoðað. Var þar snæddur hádegisverður sem féll vel í kramið, lambaskankar og kartöflumús áður en ferðinni var haldið áfram eftir kaffið. Þá var ekið upp að Hvítársíðu þar sem Geitasetrið á Háfafelli var heimsótt og smakkað á afurðum íslensku geitarinnar. Auk þess var öllum gestum Geitasetursins boðið upp á kaffisopa og nýbakaðar vöfflur með rjóma. Þetta var sérstaklega skemmtileg og vel heppnuð ferð undir skínandi sólinni í mildu haustveðri. Á heimleið var ekið í gegnum Akranes og bílstjóri hópsins Halldór Guðmundsson sagði frá sögu bæjarins við hvern stað sem ekið var hjá. Ákveðið var í ferðinni að árita þrjú minningarkort til barna Ástgeirs heitins og setja inn í þau mynd af hópnum úr ferðinni til að afhenda börnum hans þremur fyrir jólin, gleðja þau og sýna það trausta bakland sem faðir þeirra átti meðal félagsmanna. Fyrir næstu haustferð stefnir félag eldri bílstjóra á að heimsækja Vestmannaeyjar.

Síðasti stjórnarfundur Frama var haldinn 18.desember og mun stjórnin koma saman á ný fljótlega eftir áramótin.

Við látum hér myndir úr starfsárinu fylgja með og þökkum félagsmönnum fyrir samstarið á árinu sem er að líða.

Með ósk um gleðilegt og farsælt nýtt ár 2024 og von um frið í heiminum öllum.

Stjórn Frama 2023-2024

Augnablik