31. desember 2025
Áramótakveðja 2025-2026
Við áramót lítum við ósjálfrátt um öxl yfir liðna atburði ársins. Þakklæti eru þau skilaboð sem stjórn Frama vill koma til sinna félagsmanna og allra þeirra sem hafa átt í viðskiptum við félagið á árinu sem við kveðjum í kvöld. Þakklæti fyrir einingu félagsmanna, þakklæti fyrir þá samstöðu sem styrkir starf félagsins á tímum sem bæði almenningur og stéttin sjálf, vænta endurbóta laga sem hingað til hafa ekki enn náð framkvæmd Alþingis, þrátt fyrir gefin loforð.
Árið 2025 byrjaði við krefjandi aðstæður fyrir starfsemi félagsins, þar sem húsnæðið beið heilmikils viðhalds tjónabóta eftir eldsvoðann í byrjun október 2024 á næstu hæð undir skrifstofu félagsins. Þessi dapurlegi atburður gerðist fjórum dögum fyrir 90 ára afmæli Bifreiðastjórafélagsins Frama. Skrifstofan var aðstöðulaus í 12 mánuði, þar af var hún lokuð í 6 mánuði. Samt sem áður hélt starfstjórn sínum takti og hélt uppi þjónustu við félagsmenn að settu lágmarki. Skilyrðin höfðu tefjandi áhrif á framkvæmdastarf félagsins og er nú verið að vinda ofan af þeim verkefnum af vandvirkni, svo allt komist í sinn farveg eins og ætlast var til, þar með talin eru Gæðavottun fagfélagsins, félagsstarf, önnur samskipti og fundarhöld sem framundan eru við félagsmenn og þjóðfélagið um málefni leigubifreiðaaksturs. Starfsemi félagins hófst á ný í húsnæðinu á 91 árs afmæli þess þann 6.október, en húsnæðið varð ekki fulltilbúið af hendi verktaka fyrr en 1.desember og opnaði opnaði skrifstofan þá formlega.
Stjórn Frama stefnir að því að halda upp á 90 ára afmæli félagsins á næstunni sem verður auglýst síðar.
Við setjum hér myndir úr ánægjulegu félagsstarfi eldri bílstjóra sem fóru í sína árlegu haustferð með félaginu þann 15.nóvember. Ferðin var akstur um Hvalfjörð, heimsókn í Hernámssetrið og svo í mat og heimsókn á sýningar Perlunnar. Næsta ferð eldri bílstjóra verður farin í september 2026.
Kæru félagar og landsmenn
Við þökkum liðið ár og óskum öllum gleðilegs nýs árs 2026
Stjórn Bifreiðastjórafélagsins Frama
