21. nóvember 2024

Áskorun B.Í.L.S. til frambjóðenda

Áskorun til frambjóðenda

 

 

 

Kæru frambjóðendur

 

Í aðdraganda kosninga til Alþingis vilja leigubílstjórar minna á þær breytingar sem hafa orðið til verri vegferðar leigubílaþjónustu á Íslandi.

 

Almenningi og stétt leigubílstjóra ofbýður framganga innviðaráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar með lagabreytingu 2022 að hafa eyðilagt traust leigubílakerfi, þegar stéttin stóð höllum fæti eftir langvarandi samdrátt. Ráðherra lét breyta lögum með þeim hætti að leiguakstur var opnaður meðal annars óreyndum mönnum sem fá leyfi til að reka leigubíla án starfsnáms og án íslenskukunnáttu. Afleiðingarnar eru endurtekið ofbeldi, hækkandi verð og samdráttur í stéttinni. Tilvikum misréttis fjölgar daglega og í því samhengi viljum við minna á að svindl er ekki samkeppni. Almenningur hefur orðið fyrir barðinu á breytingunum sem leigubílstjórar vöruðu íslensk stjórnvöld við, þá er innviðaráðherra hélt leigubílstjórum utan málefnalegrar umræðu. Hagsmunir stéttarinnar voru virtir af vettugi. Heggur sá er hlífa skyldi.

 

Slæm reynsla almennings hefur nú alið á tortryggni í garð allra leigubílstjóra.

 

Í lagabreytingunni var auk þess samningsréttur stéttarinnar felldur úr lögum, sem er brot á almennum atvinnuréttindum. Við þau kjör, geta nú leigubílstjórar illa varið sig, en stjórnendur geta hæglega hrint fram ósanngjörnum málalyktum í skipulagningu starfsins.

 

Vegferð þjónustu leigubíla fer nú ört hnignandi með þessu fyrirkomulagi.

 

Í lögum 120/2022 var bætt við bráðabirgðaákvæði um að hefja skal endurskoðun laganna eigi síðar en 1.janúar 2025. Endurskoðun laga um leigubifreiðaakstur verður þá með fyrstu verkefnum nýrrar ríkisstjórnar.

 

Nú gefst frambjóðendum tækifæri til að veita öryggi almennings þann gaum, sem fráfarandi ríkisstjórn hundsaði þrátt fyrir Ákall Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra, þann 16. Desember 2022 er lögum var breytt.

 

B.Í.L.S.

 

Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra 21.nóvember 2024

Augnablik