14. apríl 2020
Atvinnuleysi: Ákall til stjórnvalda frá BÍLS
Kæru félagar
Hér fyrir neðan má lesa ákall okkar allra til stjórnvalda um að breyta því fyrirkomulagi sem er á afgreiðslu atvinnuleysisbóta til leigubifreiðastjóra:
Reykjavík 14. apríl 2020.
Góðan dag,
Erindi þetta er sent Samgöngustofu og Vinnumálastofnun. Afrit er sent til Félagsmálaráðuneytis.
Sendandi þessa erindis er Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra.
Ástæða erindisins er ákall til Vinnumálastofnunar og Samgöngustofu um að breyta því fyrirkomulagi sem er á afgreiðslu atvinnuleysisbóta til leigubifreiðastjóra.
Nú hafa aðstæður í þjóðfélaginu gert það að verkum að vinna leigubifreiðastjóra hefur algjörlega hrunið. Það sem haldið hefur uppi vinnu þeirra að öllu jöfnu er almennur leiguakstur fyrir fólk og fyrirtæki, akstur um helgarnætur og með erlenda ferðamenn.
Helgaraksturinn hefur nánast staðnumist með tilkomu samkomubanns og lokun veitingahúsa. Auk þess hafa umsvifin á almennum akstri hægt verulega á sér, samhliða öðrum hjólum atvinnulífsins.
Staða leigubifreiðastjóra er nú orðin þannig að sumir eru hættir rekstri tímabundið, á meðan aðrir þrauka áfram við þessar aðstæður. Afkoman af daglegum rekstri dugar alls ekki til að standa undir föstum kostnaði (afföll, stöðvagjöld og tryggingar), þannig að ekki fæst afgangur til að greiða út laun.
Nú hefur Vinnumálstofnun svarað mörgum leigubifreiðastjórum á þann veg að þeir verði að hætta rekstri eða tilkynna Vinnumálastofnun um hverja ferð eða hvern þann dag sem þeir vinna, á meðan þeir þiggja atvinnuleysisbætur.
Við teljum þetta alls ekki í anda þess sem ríkistjórnin boðaði með hlutastarfaleiðinni. Við teljum jafnframt að hér gæti ósanngjarns mismunar milli þeirra sem starfa hjá öðrum launagreiðanda og þeirra sem eru með sjálfstæðan atvinnurekstur og greiða sjálfum sér laun.
Greinilega er vitnað í 2. mgr. b-lið 1. gr. laga nr. 23/2020 þar sem talað er um tilfallandi störf. Í okkar huga eru tilfallandi störf t.d. langar ferðir með erlenda ferðamenn, viðhafnarakstur o.s.frv. Fái bifreiðastjóri slík störf mun hann að sjálfsögðu taka sig af atvinnuleysisbótum á meðan.
Í greinargerð með frumvarpi laga nr. 23/2020 er beinlínis gert ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingi sé gert kleift að sækja um atvinnuleysisbætur þó að hann hafi ekki lokið starfsemi.
Það liggur í augum uppi að leigubifreiðastjórar verða að vera viðbúnir og til staðar í samfélaginu þrátt fyrir allt og mega þar af leiðandi ekki stöðva rekstur.
Við biðlum nú til Samgöngustofu og Vinnumálastofnunar að verkferlum verði breytt þannig að leigubifreiðastjórar geti stundað sína vinnu samhliða því sem þeir fái greitt út úr atvinnuleysistryggingasjóði á meðan ástandið varir.
Fyrir hönd BÍLS Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra
Daníel Orri Einarsson formaður