16. febrúar 2024

ÁVARP: B.Í.L.S. og Frami harma frétt af ofbeldisbroti á farþega

Stjórnarmenn Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra og Bifreiðastjórafélagsins Frama harma að ung kona hafi nýlega orðið fyrir ofbeldi af hendi tveggja manna, þar af meints leigubifreiðastjóra. Forsvarsmenn starfstéttar leigubifreiðastjóra óska ungu konunni góðs bata.

Brotaþoli getur þurft að stríða lengi við afleiðingarnar af slíku ofbeldi og endurupplifa það í ferlinu til að geta sótt rétt sinn. Því vonum við svo sannarlega að stjórnvöld veiti brotaþola nauðsynlegan stuðning til þess að ganga alla leið í gegnum ferli ákærunnar og batans.

Leigubifreiðastjórar fordæma allt ofbeldi, því það skaðar fólk ævilangt.

Félögin B.Í.L.S. og Frami voru ítrekað búin að vara stjórnvöld við þeim afleiðingum sem biðu síðustu lagabreytinga, en mættu fyrirlitningu ráðamanna og skilningsleysi þeirra á viðkvæmu umhverfi leigubifreiðaaksturs. Þar að auki höfðu forsvarsmenn leigubifreiðstjóra óskað eftir fundi með Innviðaráðherra áður en málum yrði ekki aftur snúið. Ráðherrann samþykkti samtal, en sveik það og flýtti frumvarpinu í gegnum þingið síðustu daga fyrir jólafrí 2022. Við viljum biðja þá þingmenn sem kusu með lagabreytingunni að horfast í augu við eigin mistök og við sendum þeim þingmönnum sem kusu gegn breytingunni einlægar þakkir.

Með tilliti til ákvæðis í lögunum um endurskoðun og ósk um viðbrögð til batnaðar í umhverfi leigubifreiðaaksturs.

f.h. stjórna B.Í.L.S og Frama

Daníel O. Einarsson formaður

Augnablik