12. nóvember 2020
Tilkynning B.Í.L.S. vegna nýútkominnar skýrslu OECD um samkeppnismat
Tilkynning frá Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra
- nóvember 2020
Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra gagnrýnir nýútkomna skýrslu OECD ( Samkeppnismat OECD – helstu niðurstöður ) um samkeppnismat á regluverki ferðaþjónustu og byggingariðnaðar sem kynnt var af Ferðamálaráðherra 10. nóvember s.l. Bandalagið álítur skýrsluna fjarri raunhæfu mati á atvinnulífi hins íslenska samfélags. Skýrslan gerir lítið úr nauðsyn reynslu, þekkingu og fagmennsku ýmissa iðngreina og leigubifreiðaaksturs á Íslandi.
Fyrir það fyrsta viljum við benda á þá rangfærslu í tillögunum að reglubyrði leigubifreiða séu óþarfi. Núgildandi lög og reglugerð um leigubifreiðar eru afrakstur af reynslu og vandaðri þekkingu þar sem hagsmunir neytenda eru hafðir að leiðarljósi. Ef eitthvað af þeim atriðum er fellt út, fer öryggi neytenda hallandi. Lögverndun leigubifreiðaaksturs er réttur neytenda á öruggum ferðamáta. Samkeppni leigubifreiða er ekki heft með reglum, heldur er hún einmitt tryggð á jafnréttisgrundvelli með þeim hætti. Því er vert að benda á, að með farveitum hafa vandamálin farið sívaxandi um víða veröld. Í því samhengi má vísa til Evrópu, Bandaríkjanna og nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndunum; ókostirnir sem fylgja farveitum eru meðal annars þessir: skattaundanskot, afbrotatíðni, aukin umferð fólksbíla með tilheyrandi mengun, verri nýting á almennu leiðakerfi, hærri slysatíðni, óstöðugar verðskrár veitnanna, ofbeldisglæpir, málaferli og endalausar erjur á vígvelli hinnar ósanngjörnu samkeppni farveitna við almenna leigubifreiðastjóra.
Af skýrslunni mætti halda að hér á landi væri að finna óþrjótandi markað fyrir leigubifreiðar. Sannleikurinn er því miður allt annar. Áður en veirufalaldurinn var kominn til sögunnar með 80-90% samdrætti, var vinna leigubifreiðastjóra þegar búin að dragast saman töluvert. Minnkandi vinna fyrir leigubifreiðar má til dæmis rekja til aukinnar notkunar einkabíla og ólöglegs leiguaksturs á samfélagsmiðlum.
Af höfundum skýrslunnar skín í gegn þekkingarleysið á íslenskum vinnumarkaði og einfaldlega virðingarleysið gagnvart íslensku samfélagi, sem er þekkt fyrir að vera til fyrirmyndar í málefnum mannréttinda og atvinnuréttinda. Nú mun safmélagið allt standa frammi fyrir uppbyggingu eftir langvarandi samdrátt vegna Covid-19 faraldursins. Birting skýrslunnar og upplýsingar um kostnaðinn við hana, hefði ekki getað átt sér stað á dapurlegri tímum. Það er okkar álit að 120 milljónum króna hefði verið betur varið í annað en að kynna hugmyndir um að afnema löggildingar fagstétta, sem myndu hafa án efa þær afleiðingar í för með sér að draga úr hvata til náms. Af slíkum hugmyndum má álykta að réttindi og atvinna einstaklinga myndu færast yfir til fyrirtækja viðskiptalífsins með afnámi lögverndunar fagaðila.
Sá efnahagslegi ábati þjóðarinnar sem gæti áunnist (1%) samkvæmt skýrslunni, með því að koma þessum breytingum í framkvæmd, yrði að öllum líkindum hverfandi á móti þeim efnahagslega og félagslega skaða sem samfélagið hlyti við slíkar breytingar. Um það sýnast okkur félög og samtök fagstétta á Íslandi vera meðvituð.
f.h. stjórnar B.Í.L.S.
Daníel O. Einarsson formaður