Valmynd
Lög félagsins
I. Kafli
ALMENN ÁKVÆÐI
1. grein
Félagið heitir Bifreiðastjórafélagið Frami. Starfssvæði þess er Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Hafnarfjörður, Garðabær, Álftanes, Reykjanesbær, Miðnes-, Gerða-, Vatnsleysustrandarhreppur og Grindavíkurbær.
2. grein
Tilgangur félagsins er;
a. að gæta hagsmuna félagsmanna og vinna að samstöðu leigubifreiðastjórastéttarinnar í heild;
b. að standa vörð um ökutaxta félagsmanna;
c. að hafa eftirlit með að félagsmenn veiti góða þjónustu og að þeir uppfylli þau skilyrði sem sett eru í lögum og reglugerðum um leigubifreiðar á hverjum tíma;
d. að halda uppi takmörkun á fjölda leigubifreiða til mannflutninga á félagssvæðinu;
e. að koma fram fyrir hönd félagsmanna gagnvart stjórnvöldum.
3. grein
Rétt til að ganga í félagið hafa allir þeir, sem öðlast hafa atvinnuleyfi til aksturs 4 – 8 farþega leigubifreiða á félagssvæðinu.
4. grein
Félagið skal gefa út félagsskírteini fyrir félagsmenn.
Félagsmaður glatar félagsréttindum sínum um leið og hann missir atvinnuleyfi sitt, þó mega félagsmenn sem leggja inn atvinnuleyfi sitt til skamms tíma halda félagsréttindum í allt að sex mánuði eftir innlögn, enda greiði þeir félagsgjöld í þann tíma.
Félagsmenn, sem hætta akstri um lengri eða skemmri tíma til að rækja störf fyrir félagið eða heildarsamtök, sem félagið er aðili að, mega halda félagsréttindum sínum.
5. grein
Öllum félagsmönnum er skylt að hlýða lögum félagsins og fylgja reglum sem stjórn þess hefur sett.
6. grein
Hver sá félagsmaður, sem verður þess vís, að brotnar hafa verið reglur, sem félagið hefur sett, skal tilkynna það formanni félagsins eða starfsmanni.
II. KAFLI
FUNDIR
7. grein
Aðalfundur félagsins hefir æðsta vald í öllum málum þess. Aðalfund skal halda fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Aðalfund skal boða með fjórtán daga fyrirvara með uppfestum auglýsingum á bifreiðaafgreiðslum á svæðinu. Á aðalfundi skal skýra frá störfum félagsins á liðnu ári og leggja fram enduskoðaða reikninga félagsins til umræðu og samþykktar.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir;
1. Skýrsla stjórnar.
2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar og bornir upp til samþykkis.
3. Lagabreytingar ef um er að ræða.
4. Kynning frambjóðenda.
5. Kosning til stjórnar.
6. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga félagsins og eins til vara.
7. Önnur mál.
Á aðalfundi ræður afl atkvæða, nema þar sem lög þess gera berum orðum ráð fyrir auknum meirihluta. Fundagerð aðalfundar staðfestist með undirskrift fundarstjóra og fundarritara. Fundargerð síðasta aðalfundar skal liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn sjö dögum fyrir næsta aðalfund og borin undir atkvæði í upphafi fundar.
8. grein
Formaður skal boða til stjórnarfunda er hann telur þörf á, eins ef meirihluti stjórnar óskar þess. Félagsfundir skulu haldnir, þegar stjórnin telur þess þörf. Þó er stjórn félagsins skylt að boða til fundar, ef minnst 1/10 hluti félagsmanna óskar þess skriflega, enda sé í hverju tilfelli tilgreint fundarefni.
Fundir eru löglegir, sé löglega til þeirra boðað. Fundum félagsins skal stjórna með almennum fundarsköpum.
III. KAFLI
STJÓRNARKJÖR
9. grein
Kosning í stjórn félagsins skal fara fram á aðalfundi þess. Í stjórn félagsins eiga sæti fimm manns sem kosnir eru til þriggja ára og tveir til vara sem kosnir eru til eins árs. Tilnefning varamanna fer fram á aðalfundi með þeirra samþykki. Forfallist maður í stjórn, skal kosinn maður í hans stað á næsta aðalfundi, en á meðan tekur varamaður sæti hans. Einnig skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara.
Stjórn félagsins skipar þrjá kjörgenga félagsmenn í kjörstjórn og tvo til vara. Þetta skal gert fyrir lok febrúar ár hvert.
10. grein
Kjörstjórn skal auglýsa eftir framboðum.Framboðsfrestur skal vera minnst sjö sólarhringar og skal framboðum skilað til kjörstjórnar, áður en sá frestur er liðinn. Auk þess er stjórn félagsins heimilt að tilnefna menn til stjórnarkjörs án skilyrða um undirskriftir.
11. grein
Félagsmaður getur boðið sig fram til stjórnarsetu ef hann leggur fram meðmælendalista með nöfnum fimm gildra félaga.
12. grein
Þegar framboðsfrestur er útrunninn skal kjörstjórn auglýsa stjórnarkjörið með minnst fimm daga fyrirvara með auglýsingum á bifreiðaafgreiðslum. Skal í auglýsingunni tilgreina nöfn allraframbjóðenda.
13. grein
Stjórnarkjör skal fara fram á þar til gerður kjörseðli og skal raða nöfnum þeirra sem í kjöri eru í stafrófsröð. Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt, að hann merkir í þar til gerðan reit á kjörseðli fyrir framan nafn þess frambjóðenda sem hann ætlar að kjósa.
Atkvæði er ógilt ef ekki verður séð við hvaða nafn er merkt eða ef merkt er við fleiri en einn frambjóðenda.
Þeir frambjóðendur sem flest atkvæði fá hverju sinni skulu réttkjörnir í stjórn félagsins til þriggja ára. Verði menn jafnir skal hlutkesti ráða.
Sé sá lágmarksfjöldi félagsmanna í framboði sem þarf hverju sinni skal sjálfkjörið og kosning ekki fara fram.
14. grein
Atkvæðisrétt hafa allir félagsmenn, sem greitt hafa að fullu tilskilin gjöld sín til félagsins s.l. tvo mánuði.
15. grein
Kjörstjórn skal sjá um, að kjörskrá ásamt lista yfir þá félagsmenn sem eru á kjörskrá, sé tilbúin sjö dögum fyrir kjördag og skal hvorutveggja liggja frammi á skrifstofu Frama fram að aðalfundi.
Frambjóðendur skulu hafa rétt til að fá eintak af félagaskrá, límmiðasett, viku eftir að framboðsfrestur er útrunninn.
Allar kærur út af kjörskrá skal kjörstjórn úrskurða jafnóðum og þær berast.
Kærufrestur er til loka kosninga.
16. grein
Kjörstjórn sér um talningu atkvæða á aðalfundi.
Frambjóðendur hafa rétt til að vera við talningu atkvæða.
17. grein
Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skal stjórn félagsins kjósa sér formann, varaformann og ritara, á meðan kosning fer fram skal aldursforseti stjórnar stýra fundi. Breyting í embættum er heimil hvenær sem er á árinu þyki ástæða til. Til að ná kjöri þarf hver og einn að fá a.m.k. 3/5 hluta atkvæða stjórnarmanna. Náist ekki meirihluti skal hver stjórnarmaður kjósa einn mann og sá sem flest atkvæði fær verður formaður, sá sem næstflest atkvæði fær verður varaformaður og sá sem er þriðji í röðinni verður ritari. Eins skal kjósa milli varamanna. Ef menn eru jafnir skal hlutkesti ráða.
IV. KAFLI
ÝMIS ÁKVÆÐI
18. grein
Ritari félagsins heldur gerðabækur og innfærir í þær félagsfundagerðir, stjórnarfundagerðir og lagabreytingar.
19. grein
Hver félagsmaður Frama skal greiða félagsgjald til félagsins samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar. Sé gjaldið eigi greitt fyrir eindaga skal innheimta af
því dráttarvexti í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands.
Verði vanskil á greiðslu félagsgjalda missir viðkomandi félagsmaður félagsréttindi þar til full skil hafa verið gerð vegna þeirra.
Stjórn félagsins er heimilt að innheimta þjónustugjöld hjá þeim sem njóta þjónustu félagsins.
20. grein
Lögum félagsins má einungis breyta á aðalfundi, enda hafi fyrirhugaðar breytingar verið kynntar í fundarboði.
Tillaga að lagabreytingum skal berast stjórn félagsins fyrir 15. mars til þess að hún verði löglega borin upp á næsta aðalfundi og auglýst í fundarboði. Til þess að lagabreyting nái gildi, verður hún að vera samþykkt með meirihluta greiddra atkvæða fundarmanna og tekur hún gildi að loknum aðalfundi.
Ákvæði til bráðabirgða:
Í fyrsta skipti sem kosið er eftir þessum lögum skal kosning fara þannig fram.
1) Kosnir tveir menn til þriggja ára.
2) Kosinn einn maður til tveggja ára.
3) Kosnir tveir menn til eins árs.
4) Kosnir tveir varamenn til eins árs.
5) Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga til eins árs.
6) Kosinn einn varaskoðunarmaður reikninga til eins árs.
Samþyikkt á aðalfundi 11. Apríl 2012