Valmynd
Saga Félagsins
Árið 1903 samþykkti Alþingi að veita 2.000 kr. styrk til þess að festa kaup á bifreið, þar sem fréttst hafði frá útlöndum að bifreiðar væru hin mestu þarfaþing. Töldu þingmenn hentugast að fá einkaaðila til að kaupa bifreiðina og sjá um rekstur hennar. Var kaupmanni Thomsen falið þetta verkefni og keypti hann bíl í Danmörku af Cudell gerð sem var franskættaður þýskur bíll. Smíðaður árið 1900 eða 1901.
Ljóst er að þessi bíll, sem gjarnan var kallaður Thomsensbíllinn, var lítið annað en hestakerra sem vél var sett aftur í, og var í raun úreltur þegar hann kom hingað. Þó var þetta fyrsti bíll á Íslandi. Þorkell J. Klemens vélfræðingur ók honum og var fyrsti bílstjóri landsins.
Segja má að leiguakstur hafi hafist með Thomsensbílnum. Hann fór meðal annars fram á þann hátt að farþegarnir voru látnir ýta bílnum upp Bakarabrekkuna og fengu svo að sitja í niður í Austurstræti. Þessi ferð kostaði skv. taxta 25 aura.
Haustið 1913 var stofnuð fyrsta bifreiðastöð landsins með tveimur bifreiðum af gerðinni Ford T. Hlaut bifreiðastöðin nafnið Bifreiðafélag Reykjavíkur. Árið 1914 fjölgaði bílum stöðvarinnar um 4. Þá er vitað að þeir seldu sætið í ferð upp að Elliðaám fyrir 1 krónu og 25 aura. Síðla árs 1914 leið rekstur þessarar fyrstu leigubílastöðvar undir lok og eignir hennar voru seldar. Ástæða þess var fyrst og fremst skortur á bensíni þar sem fyrri heimstyrjöldin hafði þá nýlega brotist út.
Reynt var að endurreisa Bifreiðafélag Reykjavíkur 1915 og var nafni þess breytt í Bifreiðafélag1915 en sagan endurtók sig, Bifreiðafélagið 1915 var leyst upp árið 1917 vegna skorts á varahlutum og öðrum rekstrarvörum vegna heimstyrjaldarinnar.
Fleiri menn en þeir sem stóðu að Bifreiðafélagi Reykjavíkur hugðu gott til atvinnurekstrar með hinum nýju samgöngutækjum, bifreiðum. Nokkrir menn, sem eignuðust bíla á árunum upp úr 1913, héldu þeim úti til fólks- og vöruflutninga, ýmist með föstum ferðum ellegar auglýstu í blöðum að þeir hefðu bíla til ráðstöfunar. Fátítt var að fólk notaði þessa þjónsutu á þann hátt sem nú tíðkast um leigubíla, þ.e. til þess að komast á milli staða innanbæjar, heldur voru bílarnir fyrst og fremst hafðir til skemmtiferða. Var þá gjarna ekið út fyrir bæinn eftir því sem vegir leyfðu. Einnig var nokkuð um sjúkraflutninga.
En stórtækastur í þessum efnum var Steindór H. Einarsson. Steindór eignaðist fyrsta bílinn sinn árið 1915 og var það Ford T. Réði hann til sín bílstjóra, Harald Jónsson og auglýsti meðal annars í Vísi í september að fólksflutningabifreið væri ávallt til leigu hjá Steindóri Einarssyni. Vísaði Steindór á heimasíma sinn í Ráðagerði við Sellandsstíg þar sem nú heitir Sólvallagata.
Áður en Steindór Einarsson hóf rekstur bifreiða hafði hann meðal annars fengist við að flytja fólk og varning á vélbáti milli skips og lands í Reykjavíkurhöfn, en þá var ekki til að dreyfa hafnarmannvirkjum sem stærri skip gátu lagst að og lágu skipin því á ytri höfninni. Mikil hafnargerð hófst hins vegar í Reykjavík 1913 og sá Steindór þá fram á, að innan fárra ára myndi draga verulega úr þessum flutningum. Því var það að Steindór ákvað að söðla um og snúa sér að fólksflutningum með bifreiðum, enda gerði hann sér grein fyrir hinum miklu möguleikum sem fólgnir voru í þeirri atvinnugrein.
Steindór hafði snemma mikil umsvif. Í Bifreiðaskrá Reykjavíkur 1918 kemur fram að hann átti þá 8 bifreiðar, fjórar af hvorri tegundinni, Ford og Overland. Og tveimur árum síðar, voru bifreiðar hans orðnar alls 11, allar nýjar eða nýlegar.
Sem fyrr getur hóf Steindór Einarsson rekstur bifreiða 1915 en stofnaði Bifreiðastöð Steindórs 1918. Fyrsta afgreiðsla hennar var í þröngri kompu eða öllu heldur skáp undir stiga í aðalinngangi Hótel Íslands. Haustið 1919 flutti Steindór starfsemi sína á planið sem við hann var kennt en heitir Ingólfstorg í dag. Þar var rekin bifreiðastöð allt til ársins 1986. Steindór féll frá 1966 en synir hans héldu áfram rekstrinum allt til ársins 1982.
Þegar kemur fram á árið 1919 fara að sjást merki þess að eigendur leigubifreiða telji sig betur komna með því að standa saman um rekstur bifreiðastöðva – þar kemur m.a. til samkeppnin við Bifreiðastöð Steindórs og um mitt árið sameinast nokkrir menn um afgreiðslu fyrir bíla sína í Söluturninum sem þá stóð á Lækjartorgi. Um mitt næsta ár, 1920, hefur turninn verið fluttur á horn Hverfisgötu og Kalkofnsvegar og hefur þá bílstjórum fjölgað talsvert, orðnir tólf. Eigendur bílanna voru hins vegar nokkru færri en þeir réðu bílstjóra til sín í vinnu.
Þessir tólfmenningar voru þegar farnir að auglýsa fastar ferðir til staða í nágrenni Reykjavíkur, þegar þeir ákveða að stofna hlutafélag um rekstur bifreiðastöðvar. Í byrjun árs 1921 stofna þeir Bifreiðastöð Reykjavíkur eða BSR, og um leið fluttu þeir í nýtt húsnæði við Lækjartorg Þar var stöðin til ársins 1948.
Um það leiti sem rekstur BSR hófst voru stofnaðar þrjár bifreiðastöðvar í Reykjavík, ein í Veltusundi en hinar tvær við Lækjartorg. Önnur þeirra var Nýja bifreiðastöðin, sem var starfrækt til ársins 1942, en hún skipti nokkrum sinnum um eigendur. Þessar stöðvar voru allar litlar og höfðu fáar bifreiðar í afgreiðslu og máttu sín lítils í samkeppni við Steindór og BSR.
Fleiri bifreiðastöðvar voru stofnaðar á millistríðsárunum enda má segja að millistríðsárin hafi verið bernskuskeið leiguaksturs á Íslandi. Bifreiðastöðin Bifröst var stofnuð 1928 og var lengi með afgreiðslu á Hverfisgötu 4 en síðar við Vitatorg. Litla bílastöðin var stofnuð 1927 og sameinaðist Hreyfli 1951. Stöðin hafði frá árinu 1945 aðstöðu á Hlemmtorgi, í því húsi er síðar varð stöðvarhús Hreyfils. Aðalstöðin var rekin á árunum 1930 til 1945.
Eftir sífellt framfaratímabil fram til 1929 lagðist kreppan fullum þunga á bifreiðaakstur sem og aðrar starfsgreinar. Er það engin tilviljun að þegar kreppir að, eins og þá, bæði í kjörum og lífsafkomu, leita menn gjarnan samstöðu til að halda sínum rétti og stíga skref til framfara. Það er engin tilviljun að mörg stéttarfélög voru stofnuð í kreppunni og önnur efldust.
Margar tilraunir voru gerðar til þess að stofna bílstjórafélag eftir að atvinnubílstjórum fjölgaði, en það mistókst jafnan, það var ekki fyrr en Jón Sigurðsson erindreki ASÍ boðaði bifreiðarstjóra á fund í Alþýðuhúsinu 6. október 1934 að af stofnun félags varð. Segja menn að þetta hafi tekist í þetta skiptið, vegna framgangs Jóns á fundinum, þar sem hann hvatti bifreiðastjóra til samstöðu með skörulegum ræðuflutningi.
Félagið fékk nafnið Bifreiðastjórafélagið Hreyfill, en nafninu var síðar breytt í Bifreiðastjórafélagið Frami á framhaldsaðalfundi sem haldinn var þann 20. marz 1959. Fyrir fundinum lá fyrir tillaga um breytingu á nafni félagsins. Á fundinum voru lagðar fram þrjár tillögur um nýtt nafn en þær voru Bifreiðastjórafélagið Frami, Bifreiðastjórafélagið Röst og Bifreiðastjórafélagið Akstur. Í atkvæðagreiðslu sem fram fór á fundinum fékk nafnið Bifreiðastjórafélagið Frami flest atkvæði.
Ljóst er að félagið bar meira með sér að vera stéttarfélag í skilningi þess orðs en síðar varð. Í félaginu voru bæði bifreiðarstjórar sem unnu hjá öðrum og leigubifreiðarstjórar sem voru einyrkjar, gjarnan kallaðir sjálfseignarbílstjórar.
Seinni heimstyrjöldin hafði mikil áhrif á leiguakstur á Íslandi. Segja má að stríðið hafi verið gelgjuskeið leiguaksturs. Þá mótaðist sú þjónusta sem leigubifreiðarstjórar veita í dag. Fyrir stríð voru leiguakstur, hópflutningar og sérleyfisflutningar reknir af sömu fyrirtækjunum. Í stríðinu og upp úr því skiptist þetta upp og voru ákveðin fyrirtæki eingöngu með leigakstur en önnur með sérleyfi o.s.frv. Bifreiðastöð Steindórs var lengst leigubifreiðastöðva með hópferðabíla í sérleyfisferðum, austur yfir fjall og suður á Reykjanes, nokkuð fram yfir 1960.
Með komu amerísku hermannanna, breyttist þjónusta leigubílstjóra og varð meiri á þann vega að leigubíll var tekinn á leigu þegar fólk var að skemmta sér. Eftir stríð tóku Íslendingar upp sama sið og Ameríkanar og megin verkefni leigubílstjóra var að aka fólki til og frá skemmtistöðum eða að fara rúnt eins og kallað var.
Í stríðinu var mikill skortur á leigubílum og einnig leigubílstjórum, en í lok þess og á eftir fjölgaði þeim mikið. Var svo komið að eftir 1950 stefndi í það að starfsgreinin tæki miklum breytingum. Samkeppnin var að verða það mikil að erfitt var fyrir hinn venjulega bifreiðarstjóra að draga fram lífið á atvinnunni.
Þess vegna stóðu stjórnvöld frammi fyrir ákveðinni spurningu sem þau standa í rauninni alltaf frammi fyrir: Viljum við hafa leiguakstur, atvinnugrein sem menn geta stundað sem lifibrauð og hægt verði að veita þeim aðhald eða viljum við hafa leiguakstur sem atvinnugrein þar sem hvergi er hægt að henda reiður á neinu. Þessari spurningu hefur verið svarað hér eins og annars staðar í hinum vestræna heimi.
Samþykkt var á Alþingi 1953 að takmarka fjölda leigubifreiða, þannig að allir leigubílstjórar þurftu atvinnuleyfi og sættu þannig aðhaldi. Atvinnuleyfin voru síðan gefin út 1956.
Steindór Einarsson rak stöð sína þannig að hann átti flesta bílana og hafði menn í vinnu til að aka þeim. Eftir að takmörkun var samþykkt var Steindóri heimilað að reka 35 bifreiðar. Steindór féll frá 1966 og erfingjar hans ráku stöðina með sama fyrirkomulagi. Þegar þeir hins vegar seldu stöðina 1982 töldu aðrir leigubílstjórar að ekki hafi verið heimilt að selja atvinnuleyfin með stöðinni, því þau væru bundin við ákveðna persónu. Enda var staðfest í lögum að ekki væri hægt að framselja leyfin. Kaupendur stöðvarinnar voru flestir bifreiðastjórar sem starfað höfðu þar áður. Stóð í stappi með þetta mál fram til haustsins 1984, en þá felldi Hæstiréttur þann úrskurð að sala á atvinnuleyfunum hefði ekki verið heimil samkvæmt lögum. Hins vegar fengu flestir þeir sem keypt höfðu þessi atvinnuleyfi ný atvinnuleyfi stuttu seinna.
Eftir að Bifreiðastöð Steindórs lagðist af er BSR elsta bifreiðastöð landsins, stofnuð 1921. Þó hún hafi verið stofnuð af nokkrum bifreiðastjórum, er hún lengst af búin að vera í einkaeign. BSR hefur allt frá stofnun verið með stærri bifreiðastöðvum.
Hreyfill hefur verið frá stofnun 1943 stærsta bifreiðastöð landins. Hún er rekin í samvinnufélagsformi og eru bifreiðastjórarnir eigendur stöðvarinnar. Um áramótin 2000-2001 keypti Hreyfill Bifreiðastöðina Bæjarleiðir og aka bifreiðastjórar þar undir merkjum Hreyfils/Bæjarleiða í dag.
Borgarbílastöðin var stofnuð 1951 og hefur gjarnan verið lítil bifreiðastöð, þó var hún stærri hér áður fyrr en nú.
Bæjarleiðir er stofnuð 1955. Stöðin var allt frá stofnun í hópi þriggja stærstu stöðvanna í borginni og lengst af næststærst. Hreyfill keypti stöðina um áramótin 2000 –2001 eins og fram kemur hér að framan.
Bifreiðastöð Hafnarfjarðar (BSH) sinnti aðallega akstri í Hafnarfirði. Saga leiguaksturs í Hafnarfirði á sér langa sögu og stundaði forveri BSH strætisvagnaakstur í Hafnarfirði frá 1925 til 1937. Nú í dag hefur orðið sú breyting að BSH hefur verið seld en flestir þeir bifreiðastjórar sem störfuðu þar yfirgáfu stöðina og stofnuðu A-Stöðina sem hóf starfsemi þann 1. maí 2006 ásamt bifreiðastjórum úr Reykjanesbæ sem áður óku á Aðalbílum þar í bæ.
Bifreiðastöðin Borgarleiðir er nýleg bifreiðastöð sem stofnuð var af fáum bifreiðastjórum sem komu af öðrum stöðvum á svæðinu.
Þó stöðvarnar séu fimm í dag og atvinnusvæðið nær yfir allt höfuðborgarsvæðið ásamt Reykjanesinu þá sameinast flestir bifreiðarstjórar undir merkjum Bifreiðastjórafélagsins Frama.
Það hefur ávallt verið tilgangur Bifreiðastjórafélagsins Frama, að gæta hagsmuna bifreiðarstjóra, sérstaklega gagnvart stjórnvöldum. Nú í seinni tíð, á tímum hinnar svokölluðu frjálshyggju, hefur meira verið sótt að leigubílstjórum og reynt að brjóta upp það aðhaldsfyrirkomulag sem er fyrir hendi þ.e. takmörkunina. Þetta hefur bæði verið af hálfu þeirra sem telja sig geta rekið leigubifreiðar án utanaðkomandi aðhalds og vilja láta aðra aka fyrir sig. Og svo hinir sem af pólitískum ástæðum telja að viðskiptavinum sé betur borgið, séu lögmál markaðarins látið ráða en öryggismálin höfð neðar á blaði.
Leigubílstjórar eru hins vegar sannfærðir um að leiguakstur sé það viðkvæm starfsgrein að afnám aðhalds myndi þýða að hún muni bíða mikið skipbrot og að traust viðskiptavinarins á leigubílstjórum sé grundvöllur fyrir því að þjónustunnar sé óskað.
Leigubílstjórum er kunnugt um að þar sem aðhald hefur verið minnkað með leigubílstjórum hafi menn sem gerst hafi sekir um glæpi reynt að komast í stéttina en það má alls ekki gerast hér á Íslandi.